Mismunun á grundvelli skoðana eða trúarbragða
Mismunun á grundvelli skoðana eða trúarbragða
Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 27. júlí 1993
Mál nr. 402/1990
Brinkhof gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli skoðanna eða trúar. Refsiviðurlög. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.
1. Atvik málsins
Kærandi málsins var Henricus A.G.M. Brinkhof, hollenskur ríkisborgari búsettur í Erichem í Hollandi. Hann var friðarsinni og á móti herþjónustu. Hann taldi sig vera þolanda brota af Hollands hálfu á 6., 7. 8., 14., 18., og 26. gr. SBSR.
Kærandi hlýddi ekki herkvaðningu. Hann var handtekinn af þeim sökum og fluttur í herbragga, þar sem hann hlýddi ekki skipunum, neitaði að fara í herbúning og þiggja búnað, á þeim grundvelli að herþjónusta og borgaraleg þjónusta væru í andstöðu við sannfæringu hans sem friðarsinna. Hann var þann 21. maí 1987 sakfelldur fyrir brot á 23. og 114. gr. laga um herrefsingar og 27. gr. refsilaga. Honum var vísað úr hernum og þar að auki dæmdur í 6 mánaða fangelsi af herdómstól.
Bæði kærandi og saksóknari áfrýjuðu málinu til æðsta herréttar sem staðfesti niðurstöðuna og dæmdi hann í 12 mánaða fangelsi ásamt brottvísun úr hernum. Hæstiréttur Hollands vísaði áfrýjun kæranda frá dómi.
2. Kæran
Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þar sem að hann hefði verið sakfelldur á grundvelli herrefsilaga, sem áttu eingöngu við um hermenn. Greinin átti ekki við um hann sem friðarsinna, þar sem hann gat ekki talist tilheyra hópi hermanna. Hann taldi því að andstaða hans við því að gegna herþjónustu gæti ekki talist refsiverð samkvæmt lögum.
Kærandi hélt því einnig fram að hann hefði verið þolandi brota á 26. gr. samningsins, á þeim grundvelli að hægt væri að saksækja friðarsinna samkvæmt herrefsilögum en ekki Votta Jehóva.
Einnig taldi kærandi að brotið hefði verið gegn 26. gr. SBSR á þeim grundvelli að herrefsilög, ólíkt refsilögum, hefðu ekki að geyma ákvæði um endurskoðun ákvörðunar um herkvaðningar. Kærandi taldi það vera óhugsandi að borgurum sem sinntu herþjónustu og öðrum almennum borgurum væri mismunað.
3. Athugasemdir aðildarríkis
Aðildarríkið viðurkenndi að Vottar Jehóva hefðu fengið undanþágu frá herskyldu síðan 1974. Breytingar á lögum um hverkvaðningu sem væru í undirbúningi gerðu ráð fyrir því að allir sem mótmæltu herskyldu ættu rétt á að skýra mál sitt fyrir stjórnvöldum og að Vottar Jehóvar þyrftu ekki að sinna herkvaðningu. Að mati ríksins var það talin vera sterk vísbending á að mótmæli væru af einlægum trúarástæðum ef aðilar tilheyrðu söfnuði Votta Jehóva. Þess vegna teldust þeir sjálfkrafa falla undir undanþáguákvæði laganna. En aðildarríkið benti jafnframt á að þetta útilokaði ekki að friðarsinnar gætu fallið undir undanþáguákvæðið.
Aðildarríkið taldi að undanþágan frá herkvaðningu, sem Vottar Jehóva hefðu samkvæmt lögum væri ekki í andstöðu við jafnræðisregluna þar sem hún væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.
4. Niðurstaða nefndarinnar
4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi
Nefndin taldi að kærandi hefði leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands.
Varðandi þá kröfu kæranda að hann hafi verið þolandi brota á 26. gr. samningsins þar sem að herrefsilög ólíkt refsilögum, innihéldu engin ákvæði um áfrýjun gegn herkvaðningu vísaði nefndin til fyrri álita nefndarinnar í málum nr. 245/1987 og nr. 267/1987 og áleit að lögsaga 26. gr. næði ekki til aðstæðna líkt þeim sem kærandi stóð andspænis, þessi hluti kærunnar var því ekki talinn tækur til meðferðar skv. 2. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR.
Nefndin taldi hins vegar þann hluta kærunnar sem fjallaði um mismunun á Vottum Jehóva og annarra herandstæðinga tækan til meðferðar.
Ekki var talið að nægileg rök hefðu verið færð fram fyrir öðrum kröfum kæranda og þær því ekki talda tækar til meðferðar skv. 2. og 3. gr. valfrjálsrar bókunar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
4.2. Álit um efnishlið málsins
Úrlausnarefni nefndarinnar í máli þessu var að kanna hvort mismunun sú sem gerð var á undanþágum frá herþjónustu milli Votta Jehóva og annarra sem mótmæltu herskyldu væri ólögmæt í skilningi 26. gr. samningsins. Nefndin benti á að aðildarríkið teldi mismunun byggða á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, þar sem að Vottar Jehóva væru söfnuður með strangar hegðunarreglur og það að vera meðlimur í þeim söfnuði væri sterk vísbending í þá átt að mótmæli við að gegna herþjónustu eða opinberum störfum þess í stað, væru byggð á ósviknum trúarskoðunum. Nefndin benti á að engar lagareglur væri að finna um undanþágur fyrir aðra mótmælendur herskyldu. Aðrir mótmælendur væru skyldugir til að sinna öðrum opinberum störfum í þágu ríkisins ef þeir neituðu að sinna herþjónustu vegna sannfæringar sinnar, þá væru þeir einnig saksóttir og dæmdir til fangelsisvistar.
Nefndin taldi að undanþága fyrir einungis einn tiltekinn hóp mótmælanda og útilokun á undanþágu fyrir alla aðra gæti ekki talist málefnaleg í skilningi 26. gr. Í þessu samhengi vísaði nefndin til almennrar umsagnar sinnar um 18. gr. og lagði áherslu á að þegar réttur til mótmæla á að gegna herþjónustu væri viðurkenndur af ríki, skyldi engin mismunun gerð á mótmælendum á grundvelli eðli trúar þeirra. Því væri löggjöfin í andstöðu við 26. gr. Samt sem áður taldi nefndin að í þessu tiltekna máli hefði kærandi ekki sýnt fram á að sannfæring hans sem friðarsinni væri ósamrýmanleg þeirri opinberu þjónustu sem kæmi í stað herþjónustu í Hollandi. Þar af leiðandi taldi nefndin að kærandi hefði ekki verið þolandi brota á 26. gr. samningsins.
Nefndin var samt sem áður á þeirri skoðun að ríki ættu að veita öllum mönnum, sem mótmæla herþjónustu og opinberri þjónustu þess í stað, sams konar meðferð. Nefndin mæltist til þess að aðilarríkið endurskoðaði þessar reglur og framkvæmd á þeim með það í huga að nema úr lögum alla mismunun.
HMP
Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 3. nóvember 1999
Kærumál nr. 666/1995
Foin gegn Frakklandi
Samfélagsþjónusta. Mismunun á grundvelli skoðana. Brot gegn 26. gr. samningsins.
1. Atvik málsins
Kærandi máls þessa var Frédéric Foin, franskur ríkisborgari sem fæddur var árið 1966 og bjó í Valence í Frakklandi þegar málið var tekið til meðferðar. Kærandi hafði fengið viðurkennda synjun hans á því að sinna herþjónustu vegna samvisku sinnar í samræmi við rétt hans þar að lútandi í 8. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) og hafði því stöðu andstæðings herskyldu í Frakklandi. Gerðu lög um þjónustu í þágu ríkisins ráð fyrir að andstæðingar herskyldu sinntu þjónustu sinni með öðrum hætti en með herþjónustu, þ.e. vinnu í þágu samfélagsins; samfélagsþjónustu.
Kærandi yfirgaf hins vegar starfsstöð þá, sem hann átti að sinna samfélagsþjónustu sinni á, eftir nákvæmlega 12 mánuði af þjónustu og braut með því gegn 6. mgr. 116. gr. laga um þjónustu í þágu ríkisins, en í því ákvæði kom fram að andstæðingar herskyldu skyldu sinna samfélagsþjónustu í tvö ár, á meðan skyldutími herþjónustu var innan við eitt ár. Var kærandi ákærður fyrir að yfirgefa starfsstöð á friðartíma og eftir að hafa ítrekað áfrýjað máli sínu loks sakfelldur og var refsing hans ákveðin sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Að lokum vísaði Hæstiréttur Frakklands áfrýjun kæranda frá þar sem rétturinn taldi að Mannréttindasáttmáli Evrópu og samningurinn bönnuðu ekki að andstæðingar herskyldu sinntu lengri þjónustu en þeir einstaklingar sem sinntu herþjónustu, svo lengi sem grundvallarréttindi þeirra og frelsi sætti ekki skerðingu.
2. Kæran
Kærandi taldi að franska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem ákvæði laga um þjónustu í þágu ríkisins gerðu ráð fyrir því að þeir einstaklingar sem væru andstæðingar herskyldu sinntu þjónustu í þágu ríkisins sem væri tvöfalt lengri en sú þjónusta sem þeir einstaklingar, sem ekki væru andstæðir herskyldu og væru í hernum, þyrftu að sinna. Taldi kærandi að ákvæði laganna leiddu til þess að einstaklingum væri mismunað á grundvelli skoðanna sinna og væri sú mismunun ólögmæt þar sem lögin byggðu ekki á sjónarmiðum er talist gætu málefnaleg og hlutlæg. Þá fælust einnig refsikennd sjónarmið í viðkomandi lagaákvæðum, þar sem einstaklingar ættu á hættu að vera refsað vegna skoðanna sinna, líkt og í tilviki kæranda sem var gert að sæta sex mánaða skilorðsbundinni refsingu.
Þá taldi kærandi að mál Jarvinen gegn Finnlandi (mál nr. 196/1985), sem ríkið vísaði til í málatilbúnaði sínum, ætti ekki við í kærumáli sínu, en í því máli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að finnska ríkið hefði ekki gerst sekt um ólögmæta mismunun gagnvart andstæðingi herskyldu, sem sinna þurfti lengri þjónustu í þágu ríkisins en þeir sem gegndu herþjónustu. Í málinu taldi nefndin að lengri þjónustutími réttlættist af því að viðkomandi einstaklingur þyrfti ekki að fá sérstaka viðurkenningu á stöðu sinni sem mómælandi til þess að geta hafið þjónustu sína í þágu ríkins; nægjanlegt væri fyrir viðkomandi að lýsa því yfir að hann væri andstæður herskyldu og tæki þá samfélagsþjónusta við, sem varði í lengri tíma en herþjónusta. Kærandi taldi að greina þyrfti á milli máls Jarvinens og síns máls þar sem lagaumhverfi í Finnlandi og Frakklandi væri ólíkt að þessu leyti, þar sem andstæðingar herskyldu í Frakklandi gætu ekki hafið samfélagsþjónustu sinna fyrr en viðurkenning á stöðu þeirra sem andstæðingar herskyldu hefði borist frá hermálaráðaráðuneytinu, og byrjaði umrætt tveggja ára tímabil ekki að líða fyrr en frá þeim tímapunkti. Af þessum sökum ætti mál Jarvinens ekki við í tilviki kæranda.
3. Athugasemdir aðildarríkis
Franska ríkið taldi að mismunur sá, sem gerður væri á lengd þjónustutíma þeirra sem sinntu samfélagsþjónustu annars vegar og þeirra er sinntu herþjónustu hins vegar, væri byggður á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, og væri því ekki ólögmætur. Á meðal þessara sjónarmiða væri að í herþjónustu sættu menn meiri hömlum á athafnafrelsi sínu og því væri styttri tími þjónustu réttlætanlegur. Þá vísaði ríkið til máls Jarvinens, sem gerð eru skil hér að ofan, og taldi það sambærilegt máli kæranda og því ætti niðurstaðan að vera á sama veg, eða sú að aðildarríkið hefði ekki gerst brotlegt gegn 26. gr. SBSR og lengri þjónustutími andstæðinga herskyldu væri hvorki ómálefnalegur né byggður á refsikenndum sjónarmiðum. Ríkið hefði ekki gerst brotlegt gegn meginreglunni um jafnræði þar sem um væri að ræða mismunandi meðferð á málum einstaklinga sem væru í mismunandi stöðu.
4. Niðurstaða nefndarinnar
4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi
Nefndin féllst ekki á þá athugasemd franska ríkisins að kæran væri ekki tæk til efnismeðferðar samkvæmt 3. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR, en sú grein lýsir hvert það erindi óleyfilegt sem er ósamrýmanlegt ákvæðum samningsins. Í þessu samhengi áréttaði nefndin að kæran varðaði ekki réttinn til mótmæla á grundvelli samvisku sinnar, sbr. 8. gr., sem slíkan. Taldi nefndin að kærandi hefði með fullnægjandi hætti sýnt fram að kæra hans gæti vakið upp álitaefni sem tengdust 26. gr., og af þeim sökum væri kæra hans tæk til efnismeðferðar.
4.2. Álit um efnishlið málsins
Nefndin tiltók að fyrir henni lægi að taka afstöðu til þess hvort þau sérstöku skilyrði er giltu um aðra þjónustu í þágu ríksins en herþjónustu, sem kærandi átti að inna af hendi, fæli í sér brot franska ríkisins á ákvæðum SBSR. Áréttaði nefndin að samkvæmt 8. gr. væri aðildarríkjum leyfilegt að skylda þegna sína til herþjónustu og, í tilviki þeirra sem mótmæla með afdráttarlausum og staðföstum hætti, annars konar þjónustu. Það væri þó skilyrði að af slíkri þjónustu leiddi ekki ólögmæt mismunun.
Kærandi hélt því fram að það skilyrði laga um þjónustu í þágu ríkisins, að andstæðingar herskyldu sinntu samfélagsþjónustu sinni í 24 mánuði á meðan sömu lög gerðu ráð fyrir því að hermenn þyrftu ekki að sinna herþjónustu nema í 12 mánuðu, fæli í sér ólögmæta mismunum gagnvart sér og að ekki væri uppfyllt þau skilyrði 26. gr. SBSR um að allir ættu að vera jafnir fyrir lögunum og að allir ættu rétt á sömu lagavernd. Í þessu samhengi ítrekaði nefndin þá afstöðu sína að ólík meðferð einstaklinga teldist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun, þar sem mismunun sem væri í samræmi við ákvæði samningsins og væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr.
Nefndin taldi því að með lögum og framkvæmd þeirra mætti koma á kerfi sem gerði ráð fyrir aðgreiningu á þjónustu í þágu hersins annars vegar og samfélagsþjónustu hins vegar og að slík aðgreining gæti, í tilteknum tilvikum, réttlætt lengri þjónustutíma svo lengi sem aðgreiningin væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Slík sjónarmið gætu t.d. verið nauðsyn á sérstakri þjálfun einstaklings til þess að sinna þjónustu sinni eða sérstaks eðlis þeirrar þjónustu sem innt er af hendi. Í máli því sem væri til umfjöllunar hefði franska ríkið hins vegar ekki stutt málatilbúnað sinn með vísan til slíkra sjónarmiða né til þess að slík sjónarmið væru jafnan viðhöfð í málum þessum, án sérstakrar tilvísunar til máls kæranda. Málatilbúnaður ríkisins væri frekar byggður á þeim rökum að tvöfalt lengri þjónustutími andstæðinga herskyldu réttlættist af því að einungis með þeim hætti væri mögulegt að gaumgæfa hvort um einlæga sannfæringu viðkomandi einstaklings væri að ræða, eða einungis leið hans til þess að koma sér undan herskyldu. Að mati nefndarinnar gætu slík rök ekki réttlætt mismunandi meðferð á málum einstaklinga og væri því aðgreining á milli andstæðinga herskyldu annars vegar og hermanna hins vegar, hvað varðaði þjónustutíma, ekki byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Því væri um brot franska ríkisins á 26. gr. SBSR að ræða, þar sem kæranda hefði, á grundvelli skoðana sinna, verið mismunað með ólögmætum hætti.
Nefndin tók til greina að franska ríkið hefði breytt ákvæðum laga sinna, sem nefndin taldi fela í sér brot á 26. gr. SBSR, og því yrði ekki um sambærileg brot þess að ræða í framtíðinni. Með það í huga taldi nefndin að kæranda hefði verið veitt fullnægjandi úrbót vegna brota franska ríkisins gegn honum.
Í málinu skiluðu séráliti Nisuke Ando, Eckart Klein og David Kretzmer.
AÁ
Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 3. nóvember 1999
Kærumál nr. 694/1996
Waldman gegn Kanada
Einkaskólar og opinberir skólar. Opinber fjárstyrkur. Mismunun á grundvelli trúar. Brot gegn 26. gr. samningsins.
1. Atvik málsins
Kærandi í málinu var Arieh Hollis Waldman, kanadískur ríkisborgari, sem bjó í sveitarfélaginu Ontario. Kærandi er gyðingur og skráði börn sín í einkaskóla sem ætlaður er börnum sem eru gyðingatrúar. Kærandi hélt því fram að í sveitarfélaginu Ontario væru rómversk-kaþólskir einkaskólar einu trúarlegu einkaskólarnir sem fengju fullan og beinan fjárhagsstuðning frá hinu opinbera. Aðrir trúarlegir einkaskólar væru fjármagnaðir með einkaframlögum, einnig hvað varðaði laun kennara.
Í Ontario var til staðar opinbert menntakerfi er bauð upp á gjaldfrjálsa menntun fyrir öll ungmenni sveitarfélagsins. Kennurum í opinberum skólum var óheimilt að innræta nemendum sínum tiltekna trú. Þá var hverjum og einum íbúa sveitarfélagsins heimilt að koma á fót einkaskóla og ennfremur senda börn sín í slíkan skóla í stað opinbers skóla. Einkaskólar þurftu ekki leyfi yfirvalda til starfrækslu og þá höfðu yfirvöld ekki sérstakt eftirlit með starfrækslu þeirra.
Ástæðu þess að rómversk-kaþólskir einkaskólar væru þeir einu sem nytu opinbers fjárstuðnings mátti rekja kanadísku stjórnarskrárinnar frá 1867, sem sett var á þeim tíma er sambandsríkið Kanada var stofnað. Á þessum tíma voru einstaklingar sem tilheyrðu rómversk-kaþólsku kirkjunni stór hópur í Ontario en þó í miklum minnihluta í samanburði við mótmælendur, sem voru um 82% íbúa sveitarfélagsins. Meðlimir annarra trúarhópa voru innan við 1% af fólksfjölda sveitarfélagsins. Til þess að koma í veg fyrir að meirihlutahópur mótmælenda nýtti yfirburði sína hvað fólksfjölda varðar og kæmi í veg fyrir að menntun, sem byggði á rómversk-kaþólskum gildum, myndi njóta sín, var brugðið á það ráð að tryggja rétt rómversk-kaþólskra til menntunar, sem byggði á trú þeirra, með lögum.
Kanadíska stjórnarskráin frá 1867 tryggði því sérstaklega réttinn til menntunar á grundvelli sértrúar og gerðu ákvæði hennar ráð fyrir að það væri í valdi hvers og eins sveitarfélags að útfæra þennan rétt með fræðslulöggjöf sinni, með tilliti til þeirra trúarhópa sem fyrir voru í viðkomandi sveitarfélagi og skiptingu íbúa á milli þeirra. Í tilviki Ontario þýddi þetta að réttur trúarhóps rómversk-kaþólskra til menntunar var tryggður sérstaklega í fræðslulöggjöf sveitarfélagsins sem gerði ennfremur ráð fyrir fullum og beinum fjárhagslegum stuðningi til rómversk-kaþólskra einkaskóla, en ekki til annara einkaskóla.
2. Kæran
Kærandi taldi að kanadíska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR). Ákvæði stjórnarskrár Kanada frá 1867 og fræðslulöggjöf sveitarfélagsins Ontario, sem sett hefði verið á grundvelli hennar, fæli í sér mismunun gagnvart kæranda og börnum hans á grundvelli trúar þeirra. Á meðan kærandi þyrfti að standa allan straum af útgjöldum barna sinna vegna göngu þeirra til einkaskóla, sem byggður væri á gildum gyðingatrúar, yrðu foreldrar barna sem gengju í rómversk-kaþólska skóla fyrir engum eða óverulegum útgjöldum vegna skólagöngu barna sinna, þar sem rómversk-kaþólskir skólar nytu fulls fjárhagsstuðnings frá yfirvöldum í Ontario.
Kærandi taldi, að þar sem rétturinn til fjárstuðnings trúarkennslu í einkaskólum væri á annað borð viðurkenndur af yfirvöldum, ætti engin mismunun að eiga sér stað milli einstaklinga á grundvelli trúarskoðana þeirra. Ákvæði laga er gerðu ráð fyrir að rómversk-kaþólskir skólar skyldu einir njóta fulls fjárstuðnings gætu ekki talist málefnaleg. Þá væru hin sögulegu rök, er lágu að baki ákvæðum stjórnarskrárinnar frá 1867 og fræðslulöggjöf Ontario, ekki lengur, í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna, næg réttlæting þess mismunar sem gætti milli rómversk-kaþólskra einkaskóla og annarra einkaskóla af trúarlegum toga.
3. Athugasemdir aðildarríkis
Ríkið hélt því fram að engin ólögmæt mismunun hefði átt sér stað gagnvart kæranda. Aðgreining milli rómversk-kaþólska skólans og annarra trúarlegra einkaskóla væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum þar sem ólík meðferð nemenda væri byggð á ákvæðum stjórnarskrár sambandsríkisins Kanada frá 1867, en í stjórnarskránni væri gert ráð fyrir rómversk-kaþólskum skólum sem sérstökum hluta hins opinbera skólakerfis. Hin umdeilda mismunun væri því í raun ekki á milli kaþólsk-rómverskra einkaskóla og annarra einkaskóla af trúarlegum toga, heldur opinberra skóla og einkaskóla, og þá væru þau sjónarmið, sem lægju að baki opinberu menntakerfi í samræmi við ákvæði SBSR, líkt og nefndin hafði komist að í niðurstöðu í máli Blom gegn Svíþjóð annars vegar (mál nr. 191/1985) og Lindgren o.fl. gegn Svíþjóð hins vegar (mál nr. 298 og 299/1988).
4. Niðurstaða nefndarinnar
Það álitaefni lá fyrir nefndinni hvort opinber fjárstuðningur við rómversk-kaþólska einkaskóla en ekki fyrir einkaskóla er byggðu kennslu sína upp á gildum gyðingatrúar, sem leiddi til þess að kærandi yrði að standa straum af öllum útgjöldum vegna skólagöngu barna sinna, leiddi til þess að kæranda væri þolandi brots kanadíska ríkisins á 26. gr. SBSR.
Nefndin taldi ekki unnt að fallast á þá málsástæðu kanadíska ríkisins, að það eitt að stjórnarskrá gerði ráð fyrir mismunandi meðferð einstaklinga í mismunandi hópum gerði það sjálfkrafa að verkum að mismunun teldist byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Í þessu tilviki hefði aðgreining stjórnarskrárinnar byggst á þeirri stöðu sem uppi var í þjóðfélaginu árið 1867 og var markmið hennar að vernda rómversk-kaþólska samfélagið í Ontario. Samfélagsaðstæður í Ontario í dag væru hins vegar með þeim hætti að ekki væri hægt að segja að staða fólks sem væri rómversk-kaþólskt að trú, eða staða annarra samfélags- eða trúarhópa innan sveitarfélagsins, væri óhagstæðari samanborið við stöðu fólks sem væri gyðingatrúar. Með það í huga hafnaði nefndin þeirri málsástæðu ríkisins að ívilnun yfirvalda í Ontario rómversk-kaþólskum einkaskólum til handa fæli ekki í sér ólögmæta mismunun þar sem hún væri byggð á ákvæðum stjórnarskrárinnar.
Þá tók nefndin afstöðu til þeirrar málsástæðu ríkisins sem byggði á því rómversk-kaþólskir skólar væru í raun opinberir skólar þar sem í stjórnarskránni væri gert ráð fyrir þeim sem sérstökum hluta hins opinbera skólakerfis. Aðgreining á milli opinberra skóla og einkaskóla að því er varðaði fjárhagslegan stuðning væri þar af leiðandi byggð á málefnalegum sjónarmiðum, líkt og nefndin hefði komist að í fyrri álitum sínum. Nefndin áréttaði varðandi þessa málsástæðu að einkaskólar sem væru af öðrum trúarlegum toga ættu ekki möguleika á því að vera felldir inn í hið opinbera skólakerfi. Í tilviki kæranda leiddi þetta til þess að börn hans gengju í einkaskóla af trúarlegum toga, ekki vegna óska kæranda um að einkaskóli án allra tengsla við hið opinbera sæi um menntun barna sinna, heldur vegna þess að hið opinbera menntakerfi gerði ekki ráð fyrir fjárstuðningi til skóla sem byggðu á gildum trúar hans. Hins vegar væru einkaskólar, fjármagnaðir af hinu opinbera til staðar fyrir börn foreldra sem væru rómversk-kaþólskrar trúar. Nefndin áleit því að mismununin á milli á rómversk-kaþólskra einkaskóla, sem nytu opinbers fjárstuðnings sem sérstakur hluti hins opinbera menntakerfis, og skóla er höfðu gyðingatrú að leiðarljósi og væru einkaskólar af nauðsyn, gæti ekki talist byggð á sjónarmiðum sem væru málefnaleg og hlutlæg.
Með þessum orðum taldi nefndin kæranda vera þolanda brots kanadíska ríkisins á 26. gr. SBSR og lagði ennfremur fyrir ríkið að bjóða kæranda raunhæfa úrbót, sem fæli í sér afnám hinnar ólögmætu mismununar sem hann sætti.
Í málinu skilaði séráliti Martin Scheinin.
AÁ