Réttarstaða útlendinga að íslenskum rétti
Verkefni unnið á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, með styrk frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og með styrk til birtingar niðurstaðna frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands.
Umsjón Dóra Guðmundsdóttir, Cand.Jur, LL.M.
Uppbygging
Fyrsti hluti fjallar um lögfræðileg grundvallaratriði um reglur þjóðaréttar og með hvaða hætti þjóðréttarlegar skuldbindingar binda ríki. Þá er fjallað um skuldbindingar sem varða mannréttindi og gefið yfirlit yfir þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir með fullgildingu samninga Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins.
Annar hluti fjallar um skilgreiningu á „útlendingi“ og er þar gefið yfirlit yfir það hvenær þjóðréttarreglur heimila að greinarmunur sé gerður á réttarstöðu eigin ríkisborgara og útlendinga.
Í þriðja hluta er fjallað um inntak borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda sem tryggð eru í þjóðréttarsamningum sem Ísland á aðild að, sem og hvernig þessi réttindi hafa áhrif á réttarstöðu útlendinga.
Í fjórða hluta er fjallað um inntak efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda sem tryggð eru í þjóðréttarsamningum og hvernig þessi réttindi hafa áhrif á réttarstöðu útlendinga.
Niðurstöður
Við vinnu verkefnisins kom tvennt í ljós sem verðskuldar frekari rannsóknir og aðgerðir.
Í fyrsta lagi eru færri úrlausnir dómstóla og stjórnsýsluhafa á þeim sviðum sem rannsökuð voru heldur en ætla mætti í fljótu bragði. Hér verður að taka tillit til þess að úrlausnir stjórsýsluhafa, sem eru birtar, en ekki flokkaðar eru ekki aðgengilegar með auðveldum hætti.
Þó virðist sem ekki reyni oft á álitaefni fyrir stjórnvöldum á þeim sviðum sem fjallað er um í verkefninu og endanlegar úrlausnir dómstóla eru fáar. Gefur það tilefni til að kanna hvort aðgangur að úrlausnaraðilum, sérstaklega dómstólum, sé greiður fyrir útlendinga sem telja að brotið sé gegn ákvæðum laga eða þjóðréttarlegum skuldbindingum sem binda ríkið.
Í öðru lagi virðist sem aðlögun landsréttar og framkvæmd taki að miklu leyti mið af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem gilda á hverju sviði fyrir sig. Er það í samræmi við það sem búast má við og í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þessa niðurstöðu verður að skoða með fyrirvara um það sem segir hér að framan um úrlausnir í einstökum málum og aðgang að úrlausnaraðilum.
Það sem sérstaklega vekur athygli er hversu mikið er um að þjóðréttarsamningar sem fjalla sérstaklega um útlendinga og réttindi þeirra séu ekki undirritaðir af Íslands hálfu. Einnig er nokkuð um það að samningar sem hafa verið undirritaðir hafa ekki verið fullgiltir, en fyrr verða þeir ekki formlega bindandi fyrir íslenska ríkið. Um þetta vísast til umfjöllunar í II B og til einstakra kafla rannsóknarinnar, þar sem fjallað er um einstaka samninga og þar sem fram kemur að ferli til fullgildingar þjóðréttarlegra samninga er oft langt.